Sjávarfang er heilsusamlegur matur og sælkerafæði ef rétt er staðið að vinnslu, meðhöndlun og matgerð. Rætt hefur verið um að gera nýju hráefni úr hafinu, sem og hefðbundum afurðum á borð við saltfisk, hærra undir höfði. AG-Fisk (Arbejdsgruppen for Fiskerisamarbejdet) á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar hefur veitt styrk til að koma þessu verkefni af stað. Matís mun á árinu 2019 og 2020 halda vinnustofur og fundi með matreiðslumönnum, ásamt kynningum, sem fram fara á Íslandi og öðrum norðurlöndum í samvinnu við Íslandsstofu og saltfiskframleiðendur.
Í verkefninu verða kynntar hefðir, nýjungar, vinnsluaðferðir, eiginleikar og gæði. Megintilgangur verkefnisins er að auka þekkingu á sjávarfangi, eins og saltfiski, og stuðla þannig að aukinni virðingu og þannig auknu virði þess.